Börn nota netið og aðra svipaða tækni með svipuðum hætti allstaðar í Evrópu samkvæmt nýrri könnun, sem Eurobarometer hefur gert í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Meirihluti barna í þessum ríkjum notar netið nokkrum sinnum á dag og á einnig farsíma.
Rætt var við 9-10 ára og 12-14 ára börn í öllum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins og á Íslandi og í Noregi. Niðurstaðan er sú að í öllum löndunum nota flest börn netið til að leika tölvuleiki á netinu og spjalla. Farsímana nota börnin aðallega til að senda SMS og tala við foreldra og vini.
Foreldrar virðast fylgjast betur með netnotkun barna sinna en farsímanotkuninni. Haft er eftir 10 ára gömlu barni í Rúmeníu: „Foreldrar mínir segja að ég eigi ekki að vera lengur í tölvunni en 1-2 tíma vegna þess að það sé skaðlegt fyrir augun. Ég vildi gjarnan vera lengur en þau hafa rétt fyrir sér."
Nokkra athygli hefur vakið sú niðurstaða könnunarinnar, að börn gera sér grein fyrir því að niðurhal tónlistar og kvikmynda af netinu getur verið ólöglegt en allir stundi slíkt, líka foreldrar þeirra. Þá færa börnin ýmsar aðrar ástæður fyrir því að þau sækja tónlist og kvikmyndir á netið, svo sem að þau ætli ekki að dreifa efninu áfram og DVD myndir og geisladiskar séu einfaldlega of dýr.
Könnunin sýnir einnig, að börn gera sér mun betri grein fyrir þeim hættum, sem stafa af netinu, en foreldrar þeirra telja.