Sýndarhnattlíkanið Google Earth hefur vakið verðskuldaða athygli, en forritið, sem gefur notendum kost á að skoða heiminn með hjálp nákvæmra gervihnattamynda, hefur gefið út nýja útgáfu af hugbúnaðinum, þar sem hægt er að ferðast um himingeiminn og kynnast stjörnum og vetrarbrautum.
Viðbótin hefur fengið hið viðeigandi nafn „Sky”, eða „Himinn” og með því að velja þann möguleika í forritinu er hægt að ferðast um 200 milljónir stjörnuþoka, og skoða 100 milljónir stakra stjarna.
Þar að auki má velja ýmis lög ofan á hið hefðbundna kort, t.a.m. til að sjá hvernig stjörnumerkin liggja, fylgjast með afstöðu tunglsins tvo mánuði fram í tímann og skoða 129 ljósmyndir í hárri upplausn sem teknar hafa verið með Hubble geimsjónaukanum.
Til að nota þennan nýja möguleika verða notendur Google Earth að sækja nýjustu útgáfu hugbúnaðarins, 4.2, á vefsíðunni earth.google.com.