Matvendni er arfgeng

Matvendni er flókið fyrirbæri sem að stórum hluta virðist vera …
Matvendni er flókið fyrirbæri sem að stórum hluta virðist vera arfgengt. mbl.is/Eyþór

Ef þú átt í erfiðleikum með að fá barnið þitt til að borða fisk eða soðið grænmeti eru miklar líkur á að matvendnin eigi rætur sínar að rekja til foreldranna sjálfra. Samkvæmt niðurstöðu úr nýrri rannsókn sem birtist í American Journal of Clinical Nutrition er neophobia eða óttinn við áður óþekktan mat arfgengur.

Dr Jane Wardle hjá University College London rannsakaði matarvenjur og áhuga rúmlega tíu þúsund tvíbura á að prófa nýjan mat og komst að þeirri niðurstöðu að meiri líkur voru á að eineggja tvíburar hefðu sömu viðbrögð við matarborðið en önnur systkinapör sem deila heimili og því væru erfðir stór þáttur í smekk fólks á mat.

Wardle sagði að matarsmekkur erfðist á sama hátt og ytri einkenni eins og hæð og útlit.

Neophobia er næstum eina fælnin sem telst vera eðlilegur hluti af þroskaferli manna og er talið að mannkynið hafi þróast með þennan eiginleika til varnar því að börn borði hættulegan mat eins og eitruð ber eða sveppi.

Neophobia gerir vart við sig þegar börn ná tveggja til þriggja ára aldri þegar þau eru orðin mjög hreyfanleg og geta horfið foreldrunum úr augsýn á augabragði og óttinn við að borða nýja hluti getur í raun bjargað lífi þeirra.

Þó að áhuginn á að prófa nýja hluti geti verið arfgengur þá segja sérfræðingar að umhverfið sem foreldrar búa börnum sínum skipti öllu máli um matarvenjur barnanna.

„Það er ómögulegt að þetta [matvendni] sé einvörðungu arfgengt,” sagði Dr Marcy Goldsmith í samtali við AP fréttastofuna. „Foreldrar þurfa að bjóða börnum sínum nýjan mat svo að þau hafi í það minnsta tækifæri til að kynnast honum.

Að sögn sérfræðinga fer fólki smám saman að líka allur matur, eftir um það bil tíu smakkanir en fyrir suma gæti það tekið lengri tíma að venjast nýjum mat.

Sálfræðingar hafa komist að því að áhuginn á að prófa nýjan mat tengist persónuleika fólks, feimið fólk er til dæmis líklegra með að vilja ekki prófa nýjan mat.

„Neophobia er framlenging af breiðari persónueinkennum sem tengjast því hvernig fólk bregst við nýju áreiti í umhverfinu,” sagði Dr Patricia Pliner sem er prófessor í sálfræði við háskólann í Toronto.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka