Öll niðurdrepandi störf eru niðurdrepandi af sömu ástæðum, hvort sem maður er sendill eða atvinnumaður í knattspyrnu, segir bandarískur metsöluhöfundur og stjórnunarráðgjafi sem hefur rannsakað málið og skrifað bók um niðurstöður sínar. Það sem úrslitum ræður í öllum tilvikum er það sama: Slæmir yfirmenn.
Lág laun, einhæf vinna og langar ferðir til og frá vinnustað hefur allt slæm áhrif á vinnugleðina, segir stjórnunarráðgjafinn, Patrick Lencioni. En það sem raunverulega sker úr um hvort starfsmönnum finnst vinnan gefandi eða niðurdrepandi er viðmót yfirmannanna, segir hann í bók sinni, „The Three Signs of a Miserable Job,“ eða Þrjú einkenni ömurlegs starfs.
Þessi þrjú einkenni eru í fyrsta lagi að yfirmenn og stjórnendur sýna lítinn áhuga á starfsfólkinu, uppruna þess og tilveru; í öðru lagi að starfsfólkið verði ekki vart við að störf sín skipti nokkurn mann máli, ekki einu sinni yfirmennina; í þriðja lagi að starfsfólkið eigi enga möguleika á að mæla frammistöðu sína með hlutlægum hætti. Árangur í starfinu virðist byggjast á skoðunum og dyntum einhverra annarra.
Lencioni segir að hugmyndin að bókinni hafi kviknað af minningu sinni um hversu óánægður faðir sinn hafi verið í starfi. „Honum tókst að ná árangri þrátt fyrir yfirmenn sína, en ekki vegna þeirra, og það er bilun.“