„Netkaffihúsaflóttafólkið“ í Japan

Sólarhringsnetkaffihús í Tókýó.
Sólarhringsnetkaffihús í Tókýó. AP

Yfir fimm þúsund manns sofa reglulega á netkaffihúsum víðs vegar um Japan, samkvæmt opinberri rannsókn sem greint var frá í dag. Flestir næturgestanna munu vera ungt, heimilislaust fólk sem leitar á náðir þessara kaffihúsa - sem opin eru allan sólarhringinn - til að þurfa ekki að sofa á götunni.

Japanska heilbrigðisráðuneytið stóð að rannsókninni, og haft er eftir embættismanni að hún verði fyrsta skrefið til að öðlast skilning á þessu fyrirbæri - „netkaffihúsaflóttafólkinu,“ eins og japanskir fjölmiðlar kalla það - og bregðast við þeim þáttum sem hafa valdið því.

Viðskiptavinir á dæmigerðu netkaffihúsi þurfa aðeins að greiða 100 jen, eða rúmar 50 krónur, fyrir klukkutímann í litlum bás með hægindastól, tölvu og sjónvarpi. Á sumum kaffihúsanna er boðið upp á ókeypis ábót á gosdrykkjum og á nokkrum er jafnvel sturtuaðstaða.

Ráðuneytið telur að fyrirbærið „netkaffihúsaflóttafólk“ megi rekja til mikillar fjölgunar ungs fólks sem hrekst úr einu starfi í annað í kjölfar efnahagskreppunnar í landinu fyrir tíu árum, og einnig breyttra viðhorfa, en unga fólkið hafni í auknum mæli hefðbundnum vinnugildum í Japan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert