Kínversk stjórnvöld hyggjast senda tvo sýndarlögreglumenn á netið sem ætlað er að halda uppi eftirliti og berjast gegn „ólöglegri starfssemi“ á netinu, að því er kínverski ríkisfjölmiðillinn China Daily segir.
Um er að ræða tölvuteiknaðar persónur, karl og konu, sem munu birtast á skjám tölvunotenda á hálftíma fresti. Lögreglumennirnir munu „minna þá á netöryggi“, að því er dagblaðið segir.
Lögreglumennirnir munu fyrst birtast á fréttaveitum frá og með næsta laugardegi. Í framhaldinu munu þeir birtast á öllum vefsíðum í Peking og spjallvefjum fyrir lok þessa árs.
Stjórnvöld í Kína ritskoða allt efni sem sett er á netið sem og það efni sem birtist í fjölmiðlum. Þau koma í veg fyrir efni sem þau telja að stafi ógn af, bæði stjórnmálalega og siðferðislega séð. Sumir netnotendur hafa hinsvegar fundið leiðir til þess að komast hjá þessari ritskoðun stjórnvalda.