iPhone-símar fást og eru nothæfir í Kína

AP

Nýju iPhone farsímarnir frá Apple eru fáanlegir og nothæfir í Kína, þrátt fyrir að þeir hafi enn sem komið er eingöngu verið settir á markað í Bandaríkjunum. Hakkarar hafa opnað símana, sem koma læstir frá Apple, en notkun þeirra í Kína eru þó mikil takmörk sett. Það hefur samt ekki dregið úr eftirspurninni.

Símarnir fást á raftækjamörkuðum í Peking, Shanghai, Shenzhen og Guangzhou, en kosta sem svarar 1.170 dollurum, eða um 100% meira en þeir kosta út úr búð í Bandaríkjunum. Kínverska tölvu- og raftækjatímaritið Dian Nao Bao greindi frá þessu í gær.

Hægt er að senda smáskilaboð með símunum í Kína og hringja úr þeim, en ekki er hægt að svara í hann. Ennfremur er talhólfið í símanum ónothæft í Kína.

Í Bandaríkjunum er eingöngu hægt að fá símann læstan við eitt símfyrirtæki, AT&T.

Dian Nao Bao hefur eftir verslunareiganda í Peking að á degi hverjum komi um 30 manns sem kaupi iPhone eða hafi áhuga á að kaupa hann. Kaupendunum sé nokk sama þótt verðið sé hátt og síminn virki ekki fullkomlega.

Blaðið hefur eftir öðrum kaupmanni að símarnir komi frá iðnaðarborginni Shenzhen í Suður-Kína. Ekki kemur þó fram í fréttinni hvernig símarnir berast til Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert