Karlar vilja fegurð en konur leita ríkidæmis

Jessica Alba. Kæmi líklega til greina ...
Jessica Alba. Kæmi líklega til greina ... AP

Bandarískir vísindamenn hafa nú rennt stoðum undir þá vel þekktu kenningu að við leit að lífsförunaut hafi karlar fyrst og fremst áhuga á fallegum konum, en konur fyrst og fremst áhuga á ríkum mönnum. Vísindamennirnir fylgdust með atferli 46 einstaklinga sem voru á hraðstefnumóti.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöðurnar eru birtar í Proceedings of the National Academy of Sciences.

Rannsóknin, sem gerð var við Indiana-háskóla, leiddi í ljós að mestar líkur voru á að karlar sæktust eftir fallegustu konunum, en konurnar kusu frekar þá menn sem gátu veitt mest fjárhagslegt öryggi.

Höfundar rannsóknarinnar segja heppilegt að nota hraðstefnumót eins og líkan til að greina þá þætti sem fólk taki með í reikninginn þegar það leiti að maka, þar sem slíkt stefnumót sé eins og skyndimynd af daglegu lífi fólks.

Vísindamennirnir spurðu þátttakendur í rannsókninni að hverju þeir leituðu í fari annarra, og var algengast að fólk svaraði því til að það væri að leita að einhverjum sem líktist því sjálfu.

En þegar á hraðstefnumótið var komið fóru þátttakendurnir að fylgja ákveðnum mynstrum, að því er greining á spurningalistum sem þeir fylltu út leiddi í ljós.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að karlarnir hafi haft mestan áhuga á þeim konum sem þeim þóttu fallegar, en konurnar mestan áhuga á að tryggja sér efnisleg gæði og ríkidæmi.

Peter Todd, sem stjórnaði rannsókninni, segir að við makaval grípi fólk til ímynda. „Þótt maðurinn hreyki sér af því að vera háþróaður er staðreyndin sú, að þegar að makavali kemur hegða flestir sér ennþá eins og staðalímyndin af Neanderthal-mönnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert