Innlögnum á skosk sjúkrahús vegna hjartaáfalla hefur fækkað um 17% síðan reykingar voru bannaðar á almenningsstöðum í Skotlandi í mars á síðasta ári. Heilbrigðisyfirvöld í Skotlandi segja þetta sönnun á því að lögin hafi orðið til að bæta heilsu fólks, en hjartaáföllum hafði fækkað um 3% á tíu árum áður en lögin voru sett.
Síðustu tíu mánuðina áður en bannið tók gildi voru 3.235 lagðir inn með hjartaáfall á níu sjúkrahús sem fylgst var með. Fyrstu tíu mánuðina eftir að bannið tók gildi voru 2.684 lagðir inn með hjartaáfall.
Peter Donnelly, aðstoðarlandlæknir Skotlands, segir að tölurnar síni að heilsa allra í Skotlandi, reykingamanna og reyklausra hafi batnað við það að lögin voru sett. Hann segist þess fullviss að reykingabannið sé stór þáttur í þessum tölum og að á næstu árum muni frekari jákvæð áhrif vegna bannsins koma í ljós.
Skotland var fyrsta landið á Bretlandseyjum sem innleiddi reykingalög, en svipuð lög tóku gildi í Wales, á N-Írlandi og á Englandi á þessu ári. Í október verður aldurstakmark til að kaupa tóbak hækkað úr sextán árum í átján í Skotlandi, svo fremi sem það fær samþykki í þinginu.