Google hefur nú boðið fram aðstoð sína í leitinni að ævintýramanninum Steve Fossett með því að birta glænýjar gervihnattamyndir af Nevada í Google Earth. Margir skoða nú þessar myndir í þeim tilgangi að koma auga á þann stað þar sem flugvél Fossets brotlenti.
Verkefnið var hleypt af stokkunum í samstarfi við vefþjónustu hjá Amazon sem heitir Mechanical Turk.
Gripið er til þessara úrræða í kjölfar árangurslausrar leitar að Fossett nú um helgina.
Fossett hvarf þann 3. september sl. en þá lagði hann af stað í flugferð frá Flying M Ranch, sem er skammt frá Yerington í Nevada, í eins hreyfils vél af Citabria gerð. Flugferðin átti ekki að taka lengri tíma en þrjár klukkustundir.
Leitarsvæðið nær yfir 44.000 ferkílómetra í óbyggðum Nevada. Auk þess er leitað í hluta Kaliforníu.
Sem fyrr segir hefur Google nú lagt sitt af mörkum í því skyni að finna Fossett með því að birta glænýjar gervihnattamyndir af Nevada í Google Earth.
Í framhaldinu bjó Amazon til leitarforrit, sem byggir á samvinnu margra einstaklinga, sem keyrt er í gegnum Mechanical Turk vefþjónustuna. Hún gengur út á það að fólk fær greitt fyrir að vinna ákveðin verk sem tölvur eiga í erfiðleikum með að ljúka, s.s. að þýða texta og meta myndir.
Hver sá sem tekur þátt í Mechanical Turk verkefninu getur halað nýjum myndum af Nevada og viðeigandi hugbúnaði inn á tölvuna sína. Fólk getur skoða myndirnar og merkt við þá staði sem það telur líklegt að vél Fossets hafi brotlent.
Fréttavefur BBC greindi frá þessu.