40% allra dauðsfalla tengd mengun og óhreinindum

Stúlkur bera drykkjarvatnspotta í Patna, höfuðstað Bihar-héraðs á Indlandi.
Stúlkur bera drykkjarvatnspotta í Patna, höfuðstað Bihar-héraðs á Indlandi. Reuters

Lífræn óhreinindi og mengun vegna tilbúinna efna í andrúmsloftinu og drykkjarvatni eiga afgerandi þátt í 40% dauðsfalla í heiminum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar bandarískrar rannsóknar. Samkvæmt niðurstöðunum má rekja dauða 62 milljóna manna á hverju ári til mengunar og óhreininda. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Rannsóknin byggir á samanburði á óhreinindum í nánasta umhverfi fólks og tíðni dauðsfalla á afmörkuðum svæðum en engar viðurkenndar mælingaraðferðir á óhreinindum í umhverfinu eru til. Á norðurslóðum er þó talið að mengun frá Tsjernóbyl í Úkraínu sé veigamesti umhverfismengunarþátturinn en Tsjernóýl er eitt af tíu svæðum veraldar sem eru talin mest mengandi fyrir umhverfið.

David Pimentel, líffræðingur við hinn virta Cornell háskóla í Bandaríkjunum, segir í grein sinni um rannsóknina sem birt er á vef LiveScience að þó vitað hafi verið að óhreinindi stuðluðu að verri heilsu hafi það komið á óvart hversu mikil áhrifin eru.

Þá segir hann ljóst að óhreint drykkjarvatn hafi hvað mest áhrif á heilsu fólks en samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) býr rúmlega einn milljarður manna við skort á hreinu drykkjarvatni. Sérfræðingar segja að um 80% allra umhverfissýkinga berast í mannslíkamann úr drykkjarvatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert