Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar í vikunni að tilkynna að öllum frekari tilraunum til að innleiða metrakerfið í Bretlandi verði hætt. Bretar fá þar með sjálfir að ráða því hversu lengi þeir halda sig við míluna, pundið og pintuna við mælingar sínar. Ákvörðunin er sögð sigur fyrir stuðningsmenn hinna fornu mælieininga, metra-píslarvottana svokölluðu.
Til stóð að Bretar myndu hætta að nota mælieningarnar innan þriggja ára. Þetta hefði þýtt að skiltum sem sýndu hraðatakmarkanir hefði verið breytt, sem gagnrýnendur sögðu bæði dýrt og ruglingslegt og að hin hábreska pinta af mjólk, sem er 0,57 lítrar, hefði heyrt sögunni til og bjórpintan sömuleiðis, sem mörgum þótti óbærileg tilhugsun.
En það var einkum tilraun stjórnvalda til að láta kaupmenn mæla vörur sínar í kílóum í stað punda sem vakti reiði meðal Breta sem vildu halda í hefðirnar. Það var kaupmaðurinn Steve Thorburn sem hrinti af stað hreyfingunni sem síðar var kennd við metra-píslarvottana, en vigtir hans voru gerðar upptækar þegar hann seldi pund af banönum á útimarkaði, og hlaut hann síðar dóm fyrir glæpinn.
Thorburn lést af völdum hjartaáfalls fyrir fjórum árum, en svo virðist sem hreyfingin sem hann hrinti af stað hafi unnið sigur í þessu mikla hitamáli.