Fullyrðingar um stækkun gráhvalastofnsins dregnar í efa

Ný rannsókn sem byggð er á erfðafræðirannsóknum á gráhvölum í Austur-Kyrrahafi bendir til þess að fullyrðingar um stækkun gráhvalastofnsins þar eigi ekki við rök að styðjast og að stöðvun veiða hafi því ekki haft þau áhrif sem talið hefur verið. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt því sem fram kemur í tímaritinu PNAS benda erfðafræðirannsóknirnar til þess að mun meira hafi verið um gráhvali á þessum slóðum áður en veiðum var hætt en hingað til hefur verið talið. Þykir það draga mjög úr trúverðugleika fullyrðinga um að gráhvölum á svæðinu hafi fjölgað um 20.000 frá því veiðum var hætt.

Segja vísindamennirnir, sem unnu að rannsókninni, að mun líklegra sé að rekja megi breytingar á stofnstæð gráhvalsins á þessum slóðum til breytinga á fæðuframboði sem rekja megi til loftslagsbreytinga en hvalveiða. Fyrr á þessu ári var greint frá því að hvalir á svæðinu bæru merki vannæringar.

„Ég held að þegar um er að ræða vísbendingar um umfangsmiklar breytingar á stofnstærð, hungur og vannæringu þurfum við að huga að langtíma loftslagsbreytingum á fæðuöflunarsvæðunum,” segir Liz Alter sérfræðingur við Stanford háskóla í Bandaríkjunum.

Talið er að gráhvalir (sandlægjur) hafi orðið útdauðar í Atlantshafi á sautjándu öld. Gráhvalastofnar lifa enn í Austur og Vestur-Kyrrahafi en vesturstofninn sem lifir austur af ströndum Rússlands er nú talinn í útrýmingarhættu og er sú þróun m.a. rakin til olíuborana og fiskveiða á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert