Nýjar alþjóðlegar tölur, sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, birti í kvöld, sýna að árangur hefur náðst í baráttunni við barnadauða og eru dauðsföll meðal barna undir fimm ára aldri nú áætluð um 9,7 milljónir á ári. Árið 1990 dóu 13 milljónir barna áður en þau náðu fimm ára aldri.
Ann Veneman, framkvæmdastjóri UNICEF, segir að þessar tölur séu mjög uppörvandi en hægt sé að gera mun meira til að draga úr barnadauða.
UNICEF segir að aðgerðir, svo sem að bæta A-vítamíni í matvæli, dreifing flugnaneta og bólusetningar við sjúkdómum hafi náð til stöðugt fleiri barna í fátækari ríkjum. Í Marokkó, Víetnam og Dóminíkanska lýðveldinu hefur barnadauði minnkað um þriðjung. Í Afríku hefur aukin bólusetning dregið úr dauða barna úr mislingum um 75%.
Tölur UNICEF byggja á upplýsingum sem safnað var með aðstoð ríkisstjórna í yfir 50 ríkjum á árunum 2005-2006. Sumir sérfræðingar hafa dregið túlkun talna UNICEF í efa og hefur AP fréttastofan eftir Christopher Murray, forstjóra heilsustofnunar Washingtonháskóla, að miðað við þær aðferðir sem nú séu fyrir hendi til að draga úr barnadauða sé árangurinn lítið betri en fyrir þremur áratugum. Murray hefur m.a. ásamt fleiri sérfræðingum skrifað grein, sem birt verður í læknaritinu The Lancet eftir hálfan mánuð þar sem aðferðafræði UNICEF og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar við upplýsingaöflun er gagnrýnd.