Lamborghini á 90 milljónir

Winkelmann kynnir Reventon í Frankfurt.
Winkelmann kynnir Reventon í Frankfurt. Reuters

Ítalski lúxusbílaframleiðandinn Lamborghini kynnti nýjan bíl á alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt í gærkvöldi. Bíllinn heitir Reventon og kostar litlar 90 milljónir króna. Er þetta dýrasti bíll sem Lamborghini hefur framleitt. Einungis verða smíðuð 20 stykki, og eru þau öll seld.

„Um leið og fréttist af bílnum seldist hann upp á fjórum dögum,“ sagði Stephan Winkelmann, forstjóri Lamborghini. Hann bætti við að auðveldlega hefði verið hægt að selja tuttugu stykki í viðbót.

Flestir kaupendurnir eru menn í Bandaríkjunum, sem eru stærsti markaður Lamborghini. Sumir eiga fyrir bíla frá verksmiðjunum. „Meðal viðskiptavina okkar eru kvikmyndastjörnur, íþróttastjörnur ... en flestir viðskiptavinanna eru kaupsýslumenn. Karlmenn. Sem eru hrifnir af lúxusvarningi.“

Reventon er nefndur í höfuðið á nauti sem banaði nautabananum Felix Guzman árið 1943. Hús bílsins er smíðað úr kolefnatrefjum, en vélin er sú sama og er í Murcielago LP640 bílnum frá Lamborghini, og kemur nýja bílnum í 100 km hraða á 3,4 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert