Bresk sjúkrahús eru að gera hálsbindi, langerma sloppa og skyrtur og skartgripi, útlæg til að reyna að koma í veg fyrir sýkingar. „Hálsbindi eru sjaldan hreinsuð en þau eru notuð daglega. Þau hafa enga þýðingu við meðhöndlun sjúklinga og hafa reynst vera örveruhreiður," segir m.a. í yfirlýsingu frá breska heilbrigðisráðuneytinu.
Sjúkrahúslæknar hafa lengi verið hvattir til að hugsa um útlit sitt og klæðast snyrtilega. Því hafa karlkyns læknar gjarnan verið með hálsbindi en það mun nú breytast.
Nýju reglurnar, sem taka gildi á næsta ári, gera kröfu um að læknar séu með bera handleggi og heldur og það þýðir, að sjúkrahúslæknar munu ekki klæðast hefðbundnum hvítum sloppum. Þá verður einnig bannað að nota gervineglur, skartgripi og armbandsúr.
Vonast er til að þetta hafi áhrif í baráttunni við sýkingar af völdum Staphylococcus aureus en sú baktería er ónæm fyrir nánast öllum þekktum sýklalyfjum.
Rannsókn sem gerð var árið 2004 á sjúkrahúsi í New York sýndi, að smitandi örverur fundust á um helmingi hálsbinda sem starfsmenn voru með.