Margir hugsa eflaust sem svo að með því að kaupa vatn á flöskum séu þeir að sneiða hjá vondu vatni í krönum, í það minnsta er það oft svo í útlandinu þar sem kranavatn er mjög misjafnt að gæðum. Fólk telur sig með öðrum orðum öruggara með flöskuvatnið en kranavatnið. En nú hefur hið gagnstæða komið í ljós, samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem greint er frá á norska netmiðlinum gronnhverdag og í Aftonbladet í Svíþjóð. Flöskuvatnið reyndist innihalda mun meira af bakteríum en venjulegt kranavatn. Í rannsókninni kom franska flöskuvatnið verst út, en í því mældust hvorki meira né minna en 5.000 bakteríur í hverjum millilítra eftir aðeins þriggja sólarhringa ræktun. Til samanburðar má geta þess að leyfilegt hámark fyrir kranavatn er 100 bakteríur.
Vert er að taka fram að tilkallaðir sérfræðingar bentu á að þetta væru ekki sjúkdómsvaldandi örverur og ógnuðu því lítið sem ekkert heilsu fólks. En lykt og bragð vatnsins gæti aftur á móti breyst við allan þennan fjölda baktería. Annað sem mælir að sjálfsögðu gegn því að fólk kaupi og drekki flöskuvatn er sú staðreynd hversu slæmt það er fyrir umhverfið af þeirri ástæðu að það þarf 1.500 sinnum meiri orku til að framleiða og flytja flöskuvatn heldur en sama magn af kranavatni. Og öllu þessu fylgir losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir sem velja og drekka kranavatn í stað flöskuvatns spara auk þess með því heilmikil peningaútlát.