Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur ákveðið að heimila niðurhal á mörgum af vinsælustu þáttum sjónvarpsstöðvarinnar. Ekki þarf að greiða fyrir niðurhalið og verður efnið í boði á netinu í viku eftir útsendingu sjónvarpsefnisins. Þetta kemur fram á vef bandaríska dagblaðsins New York Times í dag.
Stefnt er að því að þjónustan verði í boði frá og með nóvember en boðið verður upp á tilraunaútsendingar í október. Nýverið greindi NBC Universal frá því að efni sjónvarpsstöðvarinnar yrði ekki lengur í boði á iTunes líkt og verið hefur. SKýrist það af ósamkomulagi um verðlagningu Apple á efni á iTunes.
Á vef NYT kemur fram að þetta útspil NBC sé liður í viðleitni sjónvarpsstöðva í að koma í veg fyrir þá þróun að áhorf á sjónvarp fari sífellt minnkandi. Það stafi meðal annars af því að neytendur yngri en þrítugt geri orðið kröfu um að hafa val um hvenær þeir horfi á sjónvarp eða hlusti á hljóðvarp.