Spretteðlur líktust helst kalkúnum nútímans

Vísindamenn segja að spretteðlurnar sem sýndar eru í Jurassic Park-myndunum hafi í raun og veru líkst meira kalkúnum eins og við þekkjum þá nú. Eðlurnar voru því mun minni en eðlurnar í myndinni - og voru þar að auki fiðraðar. Í myndunum voru eðlurnar sýndar rúmlega mannhæðarháar og miklar veiðiklær.

En í raun og veru voru spretteðlurnar ekki nema um einn metri á hæð og tíu kíló að þyngd, en allt bendir þó til að þær hafi verið snjallar. Ennfremur er það rétt sem fram kemur í myndunum að þær hafi haft stórar skaðræðisklær.

En það sem líklega kemur unnendum kvikmyndanna mest á óvart í rannsóknarniðurstöðum sem birtar eru í Science er að útlit og stærð eðlanna hafi mest minnt á kalkúna. Bandarísk rannsókn sem gerð var i Mongólíu 1998 leiddi í ljós greinilegar vísbendingar um fjaðurstæði.

Alan Turner, vísindamaður við Náttúrusögusafn Bandaríkjanna og Columbiaháskóla í New York, segir þetta greinilegar vísbendingar um að spretteðlur hafi verið fiðraðar, "sem okkur hafði reyndar lengi grunað."

Samstarfsmaður Turners, Mark Norell, segir að ef dýr eins og spretteðlur væru til nú á dögum myndu þau við fyrstu sýn líta út fyrir að vera svolítið óvenjulegir fuglar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert