Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN fjallaði í gær um íslenskar tilraunir til að nota vetni sem orkugjafa. CNN birtir einnig frétt um málið á vefsíðu sinni og hefur það verið aðalfréttin þar í nótt og morgun. Þar er m.a. rætt við Braga Árnason, fyrrum prófessor við HÍ, sem spáir því að Íslendingar muni hætta alfarið að nota kolefniseldsneyti árið 2050.
Bragi segir, að á þessu sviði verði Íslendingar fyrirmynd annarra þjóða. Hann segir, að þegar búið verði að vetnisvæða bílaflota Íslendinga muni fiskiskipaflotinn fylgja á eftir. Það verði þó ekki auðvelt vegna þess að núverandi tækni setji takmarkanir og dýrt sé að geyma mikið magn af vetni.
Í fréttinni er einnig rætt við Ásdísi Kristinsdóttur, verkfræðing hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en hún fer fyrir starfshópi fyrirtækisins um vistvænar samgöngur. Er einnig fjallað um nýjan Mercedes Bens vetnisbíl Orkuveitunnar og sagt frá því að fleiri vetnisbílar séu væntanlegir til landsins.