Lífrænt eldsneyti úr repjufræjum og maís veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en hefðbundið jarðefnaeldsneyti, samkvæmt nýrri rannsókn.
Höfundar rannsóknarinnar segja þessar niðurstöður sýna að nauðsynlegt sé að ganga vandlega úr skugga um, að aðgerðir sem draga eigi úr losun gróðurhúsalofttegunda muni í raun hafa tilætluð áhrif.
Frá þessu segir TimesOnline, en niðurstöðurnar eru birtar í vísindaritinu Atmospheric Chemistry and Physics. Bandarískir, breskir og þýskir vísindamenn unnu rannsóknina.
Lífrænt eldsneyti úr repjufræjum og maís reyndist skila 70% og 50% meiri gróðurhúsalofti en jarðefnaeldsneyti. Lofttegundin sem fræin og maísinn skila út í andrúmsloftið er nituroxíð, en það er 296 sinnum öflugri gróðurhúsaáhrifavaldur en koltvísýringur.