gudni@mbl.is
Vitnað er í Trausta Valsson prófessor við Háskóla Íslands í forsíðugrein fréttatímaritsins TIME sem kemur út 1. október. Greinin hefur þegar birst í vefútgáfu tímaritsins.
Greinin fjallar um baráttuna um réttindi og yfirráð á norðurhjaranum og þær breytingar sem þar eru að verða. Ríki sem liggja að norðurskautssvæðinu hafa í sumar og haust minnt á nærveru sína og réttindi sem þau telja sig eiga þar. Það sem einkum hefur breytt stöðu svæðisins er að með minnkandi hafís eru gas- og olíuauðlindir undir hafsbotninum orðnar aðgengilegri. Nú bráðnar heimskautsísinn örar vegna hlýnunar andrúmsloftsins en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Við það opnast m.a. nýjar siglingaleiðir og möguleikar til hvers konar auðlindanýtingar á svæðinu.
Í greininni er tvívegis vitnað í Trausta um áhrif bráðnunar heimskautsíssins. Trausti sér m.a. fyrir sér að siglingaleiðir í Norður-Íshafi verði nú færar árið um kring, a.m.k. sérútbúnum skipum, mun fyrr en nokkurn hafði órað fyrir. Þá sér hann fyrir sér að Norður-Íshafið geti orðið hið nýja Miðjarðarhaf og að nýir byggðakjarnar muni rísa í Síberíu og heimskautahéruðum Kanada ef hlýnunin heldur áfram.
"Fyrir síðustu jól gaf ég út bókina "How the World will Change – with Global Warming" [Hvernig hnattræn hlýnun mun breyta heiminum]. Þar lýsi ég norðurslóðum sem einum mikilvægasta heimshluta framtíðarinnar og birti m.a. kort sem sýnir auðlindir í jörðu og hafsbotni sem og siglingaleiðirnar," sagði Trausti. Hann telur að á norðurhveli muni norðursvæðin hafa verulegan ávinning af hnattrænni hlýnun andrúmsloftsins en suðlægari svæði tapa. Á norðurslóðum sé nægt vatn og þar muni loftslag verða þægilegt en sunnar verði líkur á jafnvel enn meiri hitum og þurrkum en nú er.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.