Hugbúnaðar- og raftækjaframleiðandinn Apple hefur sent frá sér tilkynningu þar sem varað er við því að iPhone símar sem aflæst hefur verið eftir leiðbeiningum á netinu geti skemmst næst þegar fyrirtækið gefur út stýrikerfisuppfærslu. Fyrirtækið segir að slíkar skemmdir falli ekki undir ábyrgð og að ekki verði gert við skemmda síma.
Leiðbeiningar þar sem sýnt er hvernig hægt er að nota iPhone símann hjá hvaða símfyrirtæki sem er, krefjast þess að átt sé við stýrikerfi símans. Þetta veldur því að ekki er hægt að tryggja að uppfærslur frá Apple heppnist sem skyldi, og því mögulegt að varanlegar skemmdir verði á stýrikerfinu við uppfærsluna.
Það þykir þó ólíklegt að iPhone símarnir eyðileggist við uppfærslur, hins vegar eru nokkrar líkur á því að þeir læsist í hvert sinn sem uppfærsla er gefin út, og því verði síminn óvirkur um hríð fyrir þá sem ekki nota hann við það símfyrirtæki sem Apple hefur samið við, þ.e. þar til tölvuþorparar hafa brotið upp lásinn að nýju.
Samkvæmt bresku vefsíðunni The Register eru þó margir á því að það skipti litlu máli hvað Apple geri, þá muni tæknin sjá til þess að símarnir virki.
Heyrst hafa fregnir af því að einhverjir tugir iPhone síma séu í notkun á Íslandi, og mun væntanlega hafa verið átt við stýrikerfið í þeim öllum, þar sem síminn hefur enn ekki verið settur á markað hér á landi. Íslenskir iPhone eigendur gætu því lent í vandræðum, þegar Apple sendir frá sér næstu uppfærslu.