Kári Stefánsson tekur í dag á móti H.C. Jacobeus viðurkenningunni fyrir vísindastörf. Viðurkenningin verður veitt við hátíðlega athöfn í Gautaborg þar sem Kári mun flytja fyrirlestur um rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á erfðum algengra sjúkdóma.
Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu kemur fram að verðlaunin eru veitt vísindamönnum sem þykja hafa stundað framúrskarandi rannsóknir á sviði lífeðlisfræði eða innkirtlafræði.
„ Rannsóknir Kára Stefánssonar og samstarfsmanna hans hjá Íslenskri erfðagreiningu á sykursýki hafa verulega aukið skilning manna á erfðafræði sjúkdómsins og hafa vísindamenn víðs vegar um heiminn haldið áfram á þeirri braut sem vísindamenn ÍE ruddu. ÍE hefur þegar sett greiningarpróf á markað sem byggir á þessum rannsóknum og má ætla að frekari rannsóknir vísindamanna hjá ÍE og annarra muni halda áfram að skila sér í betri úrræðum fyrir sykursýkisjúklinga."
Novo Nordisk sjóðurinn er sjálfstæð stofnun sem hefur það meðal annars að markmiði að styðja við rannsóknir á sviði vísinda og er sérstök nefnd skipuð á vegum sjóðsins sem tilnefnir vísindamenn til viðurkenningarinnar. Verðlaunin eru veitt til heiðurs minningar H.C. Jacobeus sem snemma á síðustu öld fann upp aðferð til að spegla innri líffæri (endoscopy) og er mikið notuð aðferð enn þann dag í dag til greiningar á ýmsum sjúkdómum. Meðal þeirra sem hlotið hafa þessi verðlaun eru Jeffrey Friedman fyrir rannsóknir sínar á fitubúskap líkamans, Bruce Spiegelman fyrir rannsóknir sem aukið hafa skilning á þeim efnaskiptum sem liggja að baki offitu og sykursýki og Martin Rodbell sem hlaut nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1994 fyrir rannsóknir sínar á G-próteinum, samkvæmt tilkynningu.