Tveir risastórir kæliturnar kjarnorkuversins í Calder Hall í Bretlandi voru jafnaðir við jörðu í dag. Um er að ræða elsta kjarnorkuver Bretlands, sem hóf starfsemi árið 1956. Þar var framleitt úran til vopnaframleiðslu en einnig rafmagn sem veitt var inn á raforkukerfi landsins. Starfsemi var hætt árið 2003 og hófst þá undirbúningur að því að rífa verið.
Turnarnir tveir, sem hvor um sig var 88 metra hár, hrundu saman í morgun eftir að verkfræðingar sprengdu mikið magn af sprengiefni á réttum stöðum. Tveir aðrir turnar verða einnig jafnaðir við jörðu.
Fyrirtækið Sellafield Ltd., sem sér um svæðið á vesturströnd Englands, sagði að það myndi taka þrjá mánuði að hreinsa rústirnar þar sem turnarnir stóðu.