Ríkisstjórnin samþykkti á föstudag tillögu Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, um lagningu nýs sæstrengs, Danice, á milli Íslands og Danmerkur. Strengurinn er lagður á vegum Farice hf. sem er að 80% hluta í eigu Íslendinga og 20% í eigu Færeyinga.
Kostnaðurinn við lagningu Danice nemur 5 milljörðum króna en framlag ríkisins til verkefnisins er allt að 400 milljónum króna. Orkufyrirtækin Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja hafa lýst sig tilbúin að koma að fjármögnun verkefnisins og munu þau eignast meirihluta í Eignarhaldsfélaginu Farice ehf. sem fer með hlut Íslendinga í Farice.
Samgönguráðuneytið segir, að nýi sæstrengurinn tryggi öryggi í gagnaflutningum til og frá landinu en með honum verði til öflug gagnaflutningsleið til Evrópu til viðbótar við Farice 1 sæstrenginn. Með þessum tveimur strengjum, sem reknir verði sem eitt kerfi, sé unnt að tryggja þráðlausa tengingu milli strengja við bilun.
Þá segir ráðuneytið að strengurinn auki líkur á að draga megi að fyrirtæki í nýsköpun en leiðarvalið hafi verið ákveðið með tilliti til óska rekstraraðila netþjónabúa, sem lagt hafi mikla áherslu á að nýr strengur verði lagður þangað. Danmerkurleiðin hafi í för með sér styttri senditíma til mið- og austurhluta Evrópu og skapi æskilega nálægð við tengipunkta í Stokkhólmi og Amsterdam. Strengurinn muni jafnframt uppfylla kröfur netþjónabúa um flutningsgetu og aðra tæknilega þætti.
Farice er komið langt með rannsóknar- og tilboðsvinnu og er búið að tryggja sér framleiðslunúmer á ljósleiðarastreng og skip til lagningar.
Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir lagningu strengs til Bretlandseyja árið 2010. Ljóst er að kostnaður við lagningu strengsins til Danmerkur er 1,5 milljarði meiri en Bretlandsleiðin en nú þegar liggi fyrir drög að samningi við öfluga aðila, innlenda sem erlenda, um tengingu netþjónabús sem nægir e-Farice til að mæta auknum kostnaði við að fara Danmerkurleiðina. Greint verður frá því samkomulagi á næstu dögum.