Grunur um misnotkun lyfja til að sljóvga fórnarlömb í nauðgunarmálum hefur ekki verið staðfestur hér á landi. Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.
Á vef landlæknisembættisins kemur fram að fjölmörg lyf og vímuefni hafa þá verkun eða aukaverkun að sljóvga einstaklinginn sem neytir þeirra. Hér er um að ræða bæði lögleg og ólögleg efni.
„Umræður hafa skapast í fjölmiðlum á síðustu mánuðum, þar sem talið er að eftirritunarskylda svefnlyfið flunitrazepam sé misnotað af nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum til þess að sljóvga fórnarlambið, t.d. með því að lauma því í drykki. Því þótti ástæða til þess að kanna þessi mál ofan í kjölinn og leita upplýsinga frá lögreglu, neyðarmóttöku Landspítala og frá Rannsóknastofu Háskólans í lyfjafræði, auk þess sem leitað var í erlendum fræðigreinum um efnið.
Samkvæmt upplýsingum frá ofangreindum aðilum hér á landi hefur lyfið aldrei fundist í sýnum frá fórnarlömbum í nauðgunarmálum.
Í erlendum vísindagreinum um þessi efni kemur fram að tiltölulega sjaldgæft sé að læknislyf séu notuð í þessum tilgangi. Flunitrazepam sker sig þar ekki úr, jafnvel í þeim tilvikum þar sem fórnarlömbin telja að svo kunni að hafa verið og sérstaklega er eftir því leitað í sýnum innan þess tíma sem það á að greinast, en eftir inntöku 1 mg af flunitrazepami má finna það í þvagi í 2 – 4 sólarhringa. Oftar en ekki reynist áfengisprósentan sjálf nægileg til þess að skýra minnisleysið, en kannabis er næstalgengast í þessum sýnum.
Landlæknir mun í dreifibréfi til lækna vekja athygli á að læknislyf almennt kunni að einhverju leyti að vera misnotuð og ítreka að gæta sérstakrar varúðar við útskrift róandi lyfja og svefnlyfja almennt. Lyfjastofnun og landlæknir telja hins vegar ekki ástæðu til að taka flunitrazepam af markaði.