13,5 milljóna króna sekt fyrir ólöglega dreifingu tónlistar á netinu

Einstæð móðir í Minnesota í Bandaríkjunum var í gær dæmd til að greiða sem svarar 13,5 milljónum króna í sekt fyrir að dreifa ólöglega 24 lögum á netinu. Þetta er fyrsta dómsmálið sem úrskurður hefur fallið í vegna ólöglegrar dreifingar tónlistar á netinu, en stærstu útgáfufyrirtækin í heiminum hafa höfðað mál á hendur rúmlega 26.000 manns vegna þessa.

Konan sem dæmd var i gær, Jammie Thomas, varð fyrst til að hafna dómssátt, en henni hafði verið boðið að greiða nokkur þúsund dollara í sekt. Því boði tók hún ekki heldur lét málið fara fyrir dóm.

Afstaða Thomas var ekki sú, líkt og er skoðun margra, að hún ætti rétt á að deila tónlistarskrám á netinu, heldur hefði SafeNet, verktaki sem samtök útgáfufyrirtækja í Bandaríkjunum réði til að hafa eftirlit með höfundarréttarvörðu efni á netinu, hefði haft sig fyrir rangri sök. Hún hefði aldrei hlaðið niður tónlist af netinu eða dreift henni. Verjandi hennar reyndi að sannfæra kviðdóminn í málinu um, að engin leið væri að sanna svo ekki yrði um villst að skjólstæðingur sinn hefði í raun og veru gert það sem hún væri sökuð um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert