Óánægður eigandi iPhone síma í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn framleiðandanum Apple og segir það stríða gegn bandarískum lögum um frelsi að binda símann við eitt símfyrirtæki í tvö ár. Þá er mögulegt að síminn verði ekki seldur í Frakklandi þar sem lög þar í landi krefjast þess að símar séu seldir án kvaða um áskrift.
Timothy P. Smith, sem höfðað hefur mál gegn Apple, segir að fyrirtækið brjóti gegn samkeppnislögum með því að bjóða áskrifendum ekki að aflæsa símanum, en hann er bundinn við símfyrirtækið AT&T til tveggja ára við kaup. Þá sakar Smith Apple og AT&T um að okra með háum notkunargjöldum sem ekki séu réttlætanleg. Almennt er hægt að aflæsa niðurgreiddum símum nítíu dögum eftir kaup með því að hringja í símfyrirtækið og fá talnarunu, sem svo er notuð til að aflæsa símanum svo hægt sé að nota hann hjá öðrum símfyrirtækjum.
Fljótlega eftir að síminn kom á markað vestanhafs tókst tölvugrúskurum að aflæsa símanum og voru leiðbeiningar settar á netið. Nýleg uppfærsla frá Apple hins vegar gerði að verkum að símar sem búið var að aflæsa hættu að virka.
Þá framtíð símans í Frakklandi óráðin því upp er komin umræða um það hvort síminn komi nokkuð á markað þar í landi á þessu ári líkt og til stóð. Samkvæmt frönskum lögum má nefnilega ekki selja símategundir eingöngu bundna við áskrift. Þar með getur símfyrirtækið Orange ekki fengið einkarétt á símanum og Apple tapar þar með tekjum sem gert er ráð fyrir í samningum við símfyrirtæki.