Tæplega milljón tölvur hrundu í Kína vegna veirusýkinga

Netnotendur í Kína eru yfir 130 milljónir talsins.
Netnotendur í Kína eru yfir 130 milljónir talsins. AP

Tæplega milljón tölvur í Kína urðu fyrir veirusýkingu í síðustu viku er hátíðarhöld stóðu yfir í landinu. Að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua er um þrjár ólíkar veirusýkingar að ræða sem réðust á tölvurnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kínverskir netnotendur hafa lent í vandræðum að undanförnu.

Fyrr á þessu ári skemmdust neðansjávarkaplar vegna jarðskjálfta sem átti upptök sín í Kyrrahafi. Það varð til þess að það hægðist mjög á nettengingum og neyddust margir Kínverjar til þess að nota gömlu faxtækin sín til þess að taka á móti og senda upplýsingar.

Netnotendur eru yfir 130 milljónir í Kína og síðasta vika var kjörið tækifæri fyrir þá að nýta tímann til þess að vafra á netinu. Meirihluti Kínverja átti þá frí alla vikuna vegna hátíðarhalda, en frívikan kallast Gullna vikan. Kínverskir netnotendur höfðu því nægan tíma til þess ferðast um óravíddir netheima.

Flestir þeirra lentu hinsvegar í vandræðum og nærri ein milljón tölva hrundu af völdum veirusýkinganna.

Sérfræðingar segja hinsvegar að hlutar af tölvukerfi Kínverja starfi alveg ótrúlega vel.

Að undanförnu hefur borið á ásökunum þess efnis að kínverski herinn hafi brotið sér leið inn í viðkvæm tölvukerfi í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessu hafa kínversk stjórnvöld neitað.

Fréttavefur BBC skýrði frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert