Vaxandi áhyggjur af sjófuglastofnum í Norðurhöfum

Norrænir sérfræðingar segja, að víðtækar umhverfisbreytingar, sem rekja megi til breytinga á loftslagi, hafi raskað fæðuvef sjófugla í Norðurhöfum. Síðustu ár hafi fuglum í sjófuglabyggðum fækkað og margir stofnar eigi erfitt með að koma ungum á legg.

Sérfræðingarnir komu saman í Færeyjum í lok september og ræddu um þessi mál. Á fundinum var sérstökum áhyggjum lýst yfir nýlegum breytingum, sem hafa átt sér stað á sunnanverðu svæðinu, frá Íslandi til Norðursjávar. Kreppuástand ríki meðal sjófugla, t.a.m. hjá fýl, ritu, kríu, langvíu og lunda á víðáttumiklu svæði, eða allt frá Íslandi til Færeyja, Skotlands og Noregs.

Fæðuskortur hefur valdið afkomubresti á yfirgripsmiklu svæði síðustu fjögur ár. Segja sérfræðingarnir, að viðvarandi ástand geti valdið hruni í stofnum þegar til lengri tíma sé litið.

Þá undirstriki ótvíræðar en flóknar breytingar vistkerfi sjávar enn frekar en áður þörf fyrir að stjórna betur þáttum sem hafa áhrif á sjófugla og unnt er að stjórna, svo sem fiskveiðum í atvinnuskini, olíumengun, nytjum á sjófuglum og mengun af völdum eiturefna.

Sérfræðingarnir telja breytingarnar af völdum ýmissa samverkandi þátta, bæði náttúrulegra sveiflna í loftslagi og fyrir áhrif frá manninum. Loftlagsbreytingar hafi snert lykiltegundir í vistkerfi sjávar og sé smávaxna krabbadýrið rauðáta slíkra lykiltegunda í lægri þrepum fæðukeðju sjávar. Rauðátuna sé nú að finna norðar en hingað til en hún sé nær horfin úr syðri hlutum NA-Atlantshafs þar sem sjófuglar eru í vanda.

Rauðáta er megin æti sandsílis, sem er mjög mikilvæg fisktegund fyrir ýmsa sjófugla. Sérfræðingarnir segja, að eyðing slíkra fiskstofna nærri varpstöðvum sjófugla, sem éta fisk, geti haft afdrifaríkar afleiðingar s.s. fyrir afkomu unga.

Mikil óvissa ríkir um hver verði áhrif hlýnandi loftslags í framtíðinni. Sérfræðingarnir vilja þess vegna benda á nauðsyn þess að huga að öðrum mannlegum þáttum sem geta haft neikvæð áhrif á sjófuglastofna. Þeir leggja einnig áherslu á samvinnu margra greina þjóðfélagsins við það verkefni. Nánari tillögum um mótvægisaðgerðir verður lýst í skýrslu vinnufundarins sem kemur út síðar í haust.

Heimasíða Náttúrufræðistofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka