Nintendo annar varla eftirspurn á Wii leikjatölvunni

Reuters

Japanski leikjatölvuframleiðandinn Nintendo hefur ákveðið að lækka ekki verð á Wii leikjatölvunni en fyrirtækið ætlar að hefja sölu á Wii í Kína á næsta ári. Að sögn forstjóra Nintendo, Satoru Iwata, eru framleiddar 1,8 milljónir Wii leikjatölvur á mánuði og annar fyrirtækið varla eftirspurn.

Hagnaður Nintendo nam 132,42 milljörðum jena á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins sem er 144% aukning frá sama tímabili í fyrra. Skýrist hagnaðaraukningin helst af góðu gengi Wii og lófaleikjatölvunnar Nintendo DS í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan.

Iwata segir að útilokað sé að lækka verðið á Wii nú þegar fyrirtækið anni varla eftirspurn. Verð á Wii er lægra heldur en á sambærilegum leikjatölvum frá Sony og Microsoft. Frá því að Wii var sett á markað á síðasta ári hafa selst 13,2 milljónir eintök af leikjatölvunni og 53,6 milljónir Nintendo DS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert