Bresk rannsókn á stærðfræðigetu skoskra skólabarna sýnir að nemendur sem léku tölvuleikinn „More Brain Training” („Meiri heilaþjálfun”), á Nintendo DS lófaleikjatölvunni í klukkustund á dag í tíu vikur stórbættu námsárangur sinn í stærðfræði og halda betur einbeitingu en áður. Fréttavefur BBC segir frá þessu.
Rannsóknin var gerð á þremur sambærilegum hópum þrjátíu skólabarna, einn hópurinn notaði tölvuleikinn til að þjálfa hugann, annar hópur beitti tækni sem kölluð er „Brain Gym”, þar sem líkamsæfingum er beitt til að örva heilastarfsemi, en þriðji hópurinn engin hjálpartæki.
Fyrir tilraunina gengust hóparnir undir stærðfræðipróf, allir hóparnir bættu árangur sinn á vikunum tíu, en sá hópur sem notaði Nintendo leikinn bætti árangur sinn áberandi mest, eða úr 76 stigum af 100 í 86 stig.
Leikurinn samanstendur af smáþrautum sem reyna á heilann, talnaþrautum, lestrarprófum og leikjum sem reyna á minnið. Þá vakti athygli að þeir sem verst stóðu að vígi eftir fyrsta prófið bættu árangur sinn mest. Þar á meðal var nemandi sem þarfnast sérkennslu, sem bætti árangurinn úr 25 stig af 100 í 68 stig.