Í tilefni af alþjóðadegi psoriasissjúklinga í dag, þá verður gengið frá Hlemmi og niður Laugarveginn að Lækjartorgi. Gangan hefst kl 16.30 og kl.17.00 verður haldinn blaðamannafundur á Lækjartorgi. Munu félagar í samtökum psoriasis- og exemsjúklinga, SPOEX, sýna útbrot sín í göngunni með því að klæðast stuttermabolum. Er þetta gert til þess að gera fólki grein fyrir útbrotum á húð psoriasissjúklingum og að vekja athygli almennings og ráðamanna.
Í fréttatilkynningu kemur fram að helsta markmiðið með þessari göngu er að vinna með húðlæknum og safna áheitum í nýstofnaðan Rannsóknarsjóð SPOEX. Ætlunin er að safna 5 milljónum króna í sjóðinn. Bárður Sigurgeirsson, húðsjúkdómalæknir, var upphafsmaðurinn að stofnun sjóðsins. Heiðursfélagi SPOEX, Gísli Kristjánsson, tekur á móti hópnum á Lækjartorgi, en hann er á níræðisaldri.
Á Íslandi er 6-9 þúsund manns með psoriasis og enn fleiri með exem. Samtökin eru enn að berjast við fordóma gagnvart þessum sjúklingahópi, þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í þeim efnum og að mikil og góð þekking á sjúkdómnum sé nú þegar til staðar, samkvæmt tilkynningu.