Hraði er karlmennskutákn

Ungir menn aka hratt vegna þess að hraði er talinn til marks um karlmennsku, að því er hópur svissneskra og þýskra vísindamanna segir í rannsókn sem birt var í gær.

Menn sem eru í „dæmigerðu karlaumhverfi“ reyndust aka mun hraðar en ef þeir voru í kvennaumhverfi eða hlutlausu umhverfi.

Það voru vísindamenn við háskóla í Zürich, Neuchatel og Heidelberg sem gerðu rannsóknina. Þátt í henni tóku 83 menn á aldrinum 20-27 ára, og var notaður aksturshermir.

Þegar þátttakendur fengu að heyra „karlmannleg“ orð eins og „vöðvar“ eða „skegg“í útvarpinu í akstursherminum juku þeir hraðann. Þegar þeir aftur á móti heyrðu „kvenleg“ orð eins og „varalitur“ eða „bleikt“ óku þeir um tveim km hægar. Niðurstöðurnar voru svipaðar er þeir heyrðu hlutlaus orð eins og borð og stóll.

Einn höfunda rannsóknarinnar, Marianne Schmid Mast, prófessor í sálarfræði við Háskólann í Neuchatel, sagði niðurstöðurnar tölfræðilega marktækar.

Rannsóknin var gerð vegna þess háa hlutfalls ungra karla sem lenda í umferðarslysum sem rekja má til hraðaksturs. Schmid Mast sagði að ekki hefði áður verið sýnt fram á tengslin á milli karlmennskuviðhorfa og hraðaksturs, þótt vissuleg hefði lengi verið talið að þau væru fyrir hendi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka