Hraði er karlmennskutákn

Ung­ir menn aka hratt vegna þess að hraði er tal­inn til marks um karl­mennsku, að því er hóp­ur sviss­neskra og þýskra vís­inda­manna seg­ir í rann­sókn sem birt var í gær.

Menn sem eru í „dæmi­gerðu karlaum­hverfi“ reynd­ust aka mun hraðar en ef þeir voru í kvennaum­hverfi eða hlut­lausu um­hverfi.

Það voru vís­inda­menn við há­skóla í Zürich, Neuchatel og Heidel­berg sem gerðu rann­sókn­ina. Þátt í henni tóku 83 menn á aldr­in­um 20-27 ára, og var notaður akst­urs­herm­ir.

Þegar þátt­tak­end­ur fengu að heyra „karl­mann­leg“ orð eins og „vöðvar“ eða „skegg“í út­varp­inu í akst­urs­herm­in­um juku þeir hraðann. Þegar þeir aft­ur á móti heyrðu „kven­leg“ orð eins og „varalit­ur“ eða „bleikt“ óku þeir um tveim km hæg­ar. Niður­stöðurn­ar voru svipaðar er þeir heyrðu hlut­laus orð eins og borð og stóll.

Einn höf­unda rann­sókn­ar­inn­ar, Mari­anne Schmid Mast, pró­fess­or í sál­ar­fræði við Há­skól­ann í Neuchatel, sagði niður­stöðurn­ar töl­fræðilega mark­tæk­ar.

Rann­sókn­in var gerð vegna þess háa hlut­falls ungra karla sem lenda í um­ferðarslys­um sem rekja má til hraðakst­urs. Schmid Mast sagði að ekki hefði áður verið sýnt fram á tengsl­in á milli karl­mennsku­viðhorfa og hraðakst­urs, þótt vissu­leg hefði lengi verið talið að þau væru fyr­ir hendi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert