Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur féllst í dag á málaleitan Farice og ríkisstjórnar Íslands um að taka þátt í fjármögnun nýs sæstrengs sem efli fjarskiptaöryggi landsins. Hagsmunir Orkuveitunnar og annarra orkufyrirtækja sem að málinu koma felast í því að nýr sæstrengur mun auðvelda netþjónabúum, sem falast hafa eftir orkukaupum hér á landi, að hasla sér völl. Nýi strengurinn mun tengja Ísland við meginland Evrópu um Jótland í Danmörku.
Orkuveitan mun leggja 500 mkr. sem hlutafé til verkefnisins og sama fjárhæð mun koma frá Landsvirkjun og Hitaveitu Suðurnesja. Ríkissjóður leggur einnig fram nýtt hlutafé til verkefnisins.
Á undanförnum mánuðum hafa nokkur fjölþjóðleg fyrirtæki sem þurfa mikla orku við rekstur netþjónabúa sýnt áhuga á að setja upp starfsemi á Íslandi. Ísland hefur margt að bjóða slíkum fyrirtækjum en það sem þarf að vera til staðar til að fjölþjóðleg fyrirtæki geti rekið hér orkufrek netþjónabú eða viðlíka starfsemi er fyrst og fremst eftirfarandi öruggt háhraða fjarskiptasamband við umheiminn og möguleikar á því að tengjast alþjóðlegum samtengipunktum, langtímasamningar um orku á samkeppnishæfu verði og menntað starfsfólk.
Allir ofangreindir þættir eru fyrir hendi hér á landi að frátöldu öruggu fjarskiptasambandi við umheiminn sem er nú helsta hindrunin fyrir því að komið verði á fót starfsemi sem þessari. Með lagningu nýs sæstrengs frá Íslandi til Danmerkur á ryðja þeirri hindrun úr vegi.