Vefráðgjafarfyrirtækið Sjá ehf. er ungt en ört vaxandi fyrirtæki sem starfar á sviði vefþróunar og aðgengis vefsíðna. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2001, sinnir prófunum og þarfagreiningu fyrir vefsíður.
„Sjá veitir í raun gæðaeftirlit fyrir vefi. Í upphafi var markmiðið að gera prófanir á vefjum og gera þá notendavænni fyrir markhópana. Þegar við hins vegar fórum af stað kom í ljós að það voru fá fyrirtæki komin á þann stað með sín vefmál að hægt væri að vinna að breytingum á vefsíðum þeirra. Fyrirtækin þurftu að fara í innri endurskoðun og uppbyggingu á vefjunum og við aðstoðum fyrirtæki við það," segir Jóhanna Símonardóttir, einn stofnenda fyrirtækisins. Jóhanna segir að fyrstu árin hafi einungis stofnendurnir þrír unnið hjá fyrirtækinu.
Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt og nú vinna þar sjö konur. Spurð hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun að ráða konur til starfa svarar Jóhanna því neitandi.
„Þetta er nú í raun tilviljun en ekki sérstök stefna Sjá. Kannski má segja að konur í þessum geira velji sér frekar þennan vettvang heldur en karlar. Mögulega er líka um það að ræða að tengslanet okkar sé að meira byggt á konum en körlum, ég veit það ekki."