Mjög hefur færst í vöxt að menn sem eru skráðir sem feður barna í Danmörku fari fram á erfðaefnisrannsóknir á börnunum til að staðfesta faðerni þeirra. „Á síðustu árum hefur viðskiptavinum okkar fjölgað um helming á ári,” segir Johannes Brejner, talsmaður fyrirtækisins dnatest.dk, sem býður einstaklingum upp á greiningu erfðaefnissýna sem send eru til fyrirtækisins í pósti. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Tveir af hverjum þremur viðskiptavinum okkar eru karlar sem vilja fá það staðfest hvort þeir eigi börnin,” segir hann. „Oft segist faðirinn bara ætla með barnið í smágöngutúr í vagninum. Án þess að nokkur taki eftir því kemur hann svo tveimur eyrnapinnum fyrir sitthvoru megin við tungu barnsins. Hann gerir síðan sjálfur það sama og geymir sýnin í vasanum svo lítið beri á uns hann getur sent þau til okkar í pósti.
Robert Blum, talsmaður fyrirtækis Blumlab, segir einnig töluvert um það að konur nýti sér þjónustuna til að sanna fyrir barnsfeðrum sínum að þeir eigi í raun börn þeirra. Þá segir hann einnig nokkuð um að fullorðið fólk leiti til fyrirtækisins til að fá úr því skorið hvort það sé rétt feðrað.
Erfðaefnisgreiningar fyrirtækjanna kosta innan við 1.700 danskar krónur og eru niðurstöðurnar sendar viðkomandi innan fjórtán daga.