ÍE ætlar að færa erfðafræði nær almenningi

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining

Í dag ætlar Íslensk erfðagreining að hleypa af stokkunum nýrri þjónustu, deCODEme. ÍE er fyrsta fyrirtækið í heiminum sem býður upp á slíka þjónustu. Með þessu er verið að nýta þá sérþekkingu, sem fyrirtækið hefur byggt upp á síðasta áratugnum, til að færa erfðafræði nær almenningi, samkvæmt tilkynningu.

Á vefsíðunni, www.decodeme.com, verður hægt að panta þjónustuna, sem er tvíþætt og felur í sér annars vegar vinnslu upplýsinga úr erfðaefni viðskiptavina og hins vegar aðgang að vefsíðunni þar sem erfðaupplýsingar viðskiptavina eru settar í samhengi við þá þekkingu sem er til staðar í heiminum í dag. Meðal þess sem boðið er uppá er greining á uppruna einstaklinga, hægt er að skoða hvernig erfðamengi einstaklinga lítur út með tilliti til þeirra erfðaþátta sem vitað er að auka eða minnka líkur á algengum sjúkdómum eins og hjartaáfalli, sykursýki og fótaóeirð, samkvæmt tilkynningu.

„Dagurinn í dag er gleðidagur hér í fyrirtækinu. Það er myndarlegt skref fyrir okkur að geta nú boðið öllum þeim sem áhuga hafa upp á að skoða eigin erfðaupplýsingar og notfæra sér þannig það sem vísindin hafa upp á að bjóða", segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í tilkynningu.

Þjónustan mun kosta í kringum sextíu þúsund krónur (985 bandaríkjadali) til að byrja með og munu fyrstu viðskiptavinirnir fá tækifæri til þess að móta þjónustuna þar sem hún mun verða löguð að þörfum þeirra á næstu vikum.

Vefsíðan

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert