Kínverjar vilja ekki lýðræði í Eve Online

Samkvæmt heimildum 24 stunda eru kínverskir leikmenn í Eve Online-leiknum ekki par hrifnir af því að lýðræðið hefji senn innreið sína í tölvuleikinn, sérstaklega í ljósi þess stjórnkerfis sem er ríkjandi í Kína og á lítið skylt við hina vestrænu skilgreiningu á lýðræði. Sumir kínverskir leikmenn hafa meira að segja hótað að hætta þátttöku sinni í leiknum ef lýðræðið nær fram að ganga.

Pétur Óskarsson hjá CCP er sá sem hefur hvað mest komið að því verkefni að innleiða lýðræði í hinn mikla heim Eve Online. „Spilarar fá að kjósa úr hópi frambjóðenda sem bjóða sig fram sjálfir, þeir kjósa þann sem þeim líst best, eins og í lýðræðislegum kosningum. Þeir níu atkvæðahæstu eru kosnir í ráð og það ráð mun hafa beint samband við okkur hér hjá CCP."

Fulltrúarnir eru kosnir til hálfs árs í senn og einu sinni á kjörtímabilinu ferðast þessir fulltrúar til Íslands í boði CCP, þar sem þeir funda með fulltrúum CCP um framvindu leiksins. „Í rauninni eru þeir að flokka og forgangsraða því sem þeim og spilurunum finnst vera mest áríðandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert