Því hærri laun sem konur hafa, því minni heimilisstörfum sinna þær, óháð því hvað makar þeirra hafa í laun, samkvæmt niðurstöðum bandarískrar rannsóknar.
Bendir þetta til þess að konur noti sína eigin peninga til að létta sér húsverkin, t.d. með því að kaupa tilbúinn mat í stað þess að elda sjálfar, og ráða fólk í þrif, segir höfundur rannsóknarinnar.
Það voru vísindamenn við Háskólann í Massachusetts sem gerðu rannsóknina, en þátttakendur voru 918 konur sem vinna úti og eiga maka sem einnig er útivinnandi.
„Hingað til hefur verið talið að það sem máli skipti væri hversu miklar tekjur konur hefðu samanborið við maka sína. En það sem úrslitum ræður er hversu miklar tekjur konurnar hafa sjálfar,“ sagði Sanjiv Gupta, höfundur rannsóknarinnar.
Niðurstöðurnar eru birtar í Journal of Marriage and Family, og sýna m.a. að með hverjum 7.500 dollurum af árstekjum giftrar konu minnka heimilisstörf hennar um eina klukkustund á viku.