Skrefateljarar eru tiltölulega ódýr tæki en virðast skila töluverðum árangri til heilsubótar með því að virka hvetjandi á notendur og fá þá til að hreyfa sig meira. Aukin hreyfing leiðir til lækkunar á blóðþrýstingi og fækkar kílóunum, samkvæmt nýrri athugun sem bandarískur læknir hefur gert.
Í Bandaríkjunum kostar hefðbundinn skrefateljari um tuttugu dollara, eða sem svarar um 1.200 krónum, og hann má festa við beltið og telja hversu mörg skref maður tekur yfir daginn. Athugunin leiddi í ljós að þeir sem notuðu slíkan mæli og skráðu hjá sér hversu mörg skref þeir tóku á dag höfðu tilhneigingu til að fjölga skrefunum, og hreyfa sig þannig meira.
Læknirinn sem athugunina gerði, Dena Bravata, vildi ganga úr skugga um hvort skrefateljarar skiluðu í raun einhverjum árangri áður en hún færi að mæla með þeim við sjúklinga sína. Niðurstöðurnar birtust í Journal of the American Medical Association í dag.