Samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar, nýrrar rannsóknar er hægt að ná góðum árangri í meðhöndlun alvarlegs þunglyndis með því að örva heila sjúklinga með tíðum segulorkubylgjum. Vekur þetta vonir um að hægt verði að hjálpa þeim 20-40% þunglyndissjúklinga sem fá engan bata með lyfjum eða samtalsmeðferð.
Þessi nýja aðferð er fólgin í því að senda mjög tíðar segulorkubylgjur inn í heilann í gegnum rafspólur sem festar eru við höfuð sjúklinganna. Bylgjurnar „kveikja á“ taugafrumum á afmörkuðu svæði í heilanum, sagði einn höfunda rannsóknarinnar, Philip Janicak, prófessor í geðlæknisfræði við læknamiðstöð Rush-háskóla í Chicago.
Bylgjurnar senda ennfremur með óbeinum hætti boð til svæða dýpra í heilanum sem stjórna ílöngun og tengjast þunglyndi.
Janicak sagði ennfremur að segulörvun heilans hafi verið notuð sem valkostur í stað raflostsmeðferðar síðan um miðjan níunda áratuginn, en litlar rannsóknir sem gerðar hafi verið á skilvirkni þessarar aðferðar hafi gefið misvísandi niðurstöður.