Náttúruhamfarir, sem rekja má til veður, eru fjórum sinnum algengari nú en fyrir tveimur áratugum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresku góðgerðasamtakanna Oxfam og er fullyrt að hlýnun andrúmsloftsins sé um að kenna.
„Oxfam... segir að vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda sé meginorsök veðurtengdra náttúruhamfara og það verður að grípa til aðgerða," segja samtökin og bæta við, að fátækustu ríki heims verði verst úti vegna þessa.
Samtökin segja, að 120 náttúruhamfarir hafi orðið að meðaltali á ári á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar en nú sé þessi tala um 500 á ári.
„Í ár höfum við séð flóð í Suður-Asíu, Afríku þverri og Mexíkó sem hafa haft áhrif á líf yfir 250 milljóna manna," sagði Barbara Stocking," framkvæmdastjóri Oxfam. „Og þetta er ekkert sérstakt öfgaár. Það fylgir mynstri um stöðugt fleiri, óútreiknanlegri og öfgafyllri veðurhamfarir sem hafa áhrif á líf æ fleira fólks."
Samtökin áætla, að á árunum 1985-1994 hafi að jafnaði 170 milljónir manna orðið fyrir búsifjum árlega af völdum náttúruhamfara tengdum veðri en þessi tala hafi nú hækkað um 70%. Á sama tíma hefur náttúruhamförum af öðrum orsökum, svo sem jarðskjálftum og eldgosum, ekkert fjölgað.