Apar skáka mönnum í minnisþraut

Einn apanna sést hér leysa þraut japönsku vísindamannanna.
Einn apanna sést hér leysa þraut japönsku vísindamannanna. AP

Simpansar eru með óvenju gott ljósmyndaminni sem er mun betra en ljósmyndaminni mannfólks. Þetta kemur fram í nýrri vísindarannsókn.

Ungir simpansar stóðu sig mun betur en háskólanemar í minnisprófi sem japanskir vísindamenn bjuggu til. Þetta kemur fram á vef BBC.

Aparnir og mennirnir áttu að leggja á minnið tölur og hvar þær voru staðsettar á sjónvarpsskjá. Svo áttu þeir að raða þeim upp á réttan hátt.

Niðurstaðan, sem er birt í vísindaritinu Current Biology, þykir sýna fram á að mennirnir hafi mögulega vanmetið gáfnafar simpansanna. Þeir eru náskyldir ættingjar mannsins.

Hingað til hefur ávallt verið talið að minni, og í raun aðrir andlegir hæfileikar, simpansa væri ekki eins gott og minni mannskepnunnar.

„Það eru enn margir, t.d. líffræðingar, sem halda því fram að menn séu æðri simpönsum á öllum vitsmunasviðum,“ sagði vísindamaðurinn Tetsuro Matsuzawa, hjá háskólanum í Kýótó, en hann fór fyrir rannsókninni.

„Engum datt í hug að simpansar - ungir simpansar sem eru fimm ára - myndu standa sig betur í minnisfærni en menn. Hér sýnum við fram á í fyrsta sinn að ungir simpansar eiga óvenju gott með að muna tölur. Þeir stóðu sig betur en fullorðið fólk sem voru prófuð með sama tækinu og með sömu aðferð,“ sagði vísindamaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka