Leiðangur finnskra vísindamanna til Íslands leiddi í ljós, að í íslenskum hverum eru örverur, sem geta framleitt lífrænt vetni og etanól úr úrgangsefnum sem innihalda kolvetni. Grein um þetta birtist á vef tímaritsins Energy & Fuels. Verkefnið var unnið að frumkvæði Háskólans á Akureyri.
Vinnan hefur verið leidd af Dr. Jóhanni Örlygssyni dósent við Viðskipta- og Raunvísindadeild HA. Við skólann hafa verið stundaðar rannsóknir á hitakærum bakteríum sem framleiða vetni og etanól í lífmassa í nokkur ár.
Fram kemur á erlendum vísindafréttavefjum, að finnsku vísindamennirnir bendi á, að etanól og vetni séu þau efni, sem nú séu líklegust til að leysa olíu, kol og aðra kolvetnisorkugjafa af hólmi. Rannsóknir bendi til þess, að hagkvæmt gæti verið að framleiða þessi efni með gerjun og nota til þess bakteríur, sem séu mun hitaþolnari en þær örverur, sem nú eru notaðar.
Sumarið 2006 var farið á nokkra staði á Íslandi og sýni tekin með það að markmiði að einangra hitakærar vetnis- og etanólframleiðandi bakteríur úr íslenskum hverum.