Vakin er athygli á því á heimasíðu Umhverfisstofnunar, að ofneysla virkra efna sem finnist í grænu tei, geti valdið skaða. Tilkynnt hafi verið um einstaklinga þar sem alvarlegar breytingar á lifrarstarfsemi hafa verið raktar til neyslu á vörum úr grænu tei.
Fram kemur að menn hafi drukkið te sér til hressingar um aldir, bæði grænt og svart te. En eftir að grænt te fór að verða vinsælt vegna hugsanlegrar jákvæðrar verkunar þess á líkamsstarfsemina hafi verið farið að vinna það á ýmsan hátt og markaðsetja sem töflur, hylki, duft eða sem sterkan vökva.
Í þessum vörum geti verið mun meira magn af virkum efnum en í hefðbundnum tebolla og ofneysla slíkra efna geti valdið skaða. Í grænu tei séu andoxunarefni, sem virðist hafa jákvæð áhrif á líkamann en þau vinna gegn skaðlegum áhrifum súrefnis. Bent hafi verið á að neysla á grænu tei geti dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum og úr myndun ýmissa krabbameina.
Enn sé þó bara talað um hugsanlega verkun, því frekari rannsókna er þörf til að staðfesta þessar kenningar. Á síðasta ári synjaði bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin fyrirtæki um að merkja vörur sína með eftirfarandi fullyrðingu: Neysla á grænu tei (150 ml/dag) dregur úr áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Stofnunin taldi að vísindarannsóknir gætu ekki staðfest þessa fullyrðingu.