Náttúruverndarsinnar vara við að loftslagsbreytingar geti flýtt fyrir eyðileggingu Amazon regnskógarins mun fyrr en áður hefur verið talið.
Á fréttavef Guardian segir frá því að nærri 60% af skógum Amazon gæti verið gjöreytt eða orðið fyrir verulegum skaða fyrir 2030, vegna loftslagsbreytinga og skógarhöggs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu náttúrverndarsamtakanna World Wildlife Fund (WWF) Með eyðingunni gætu losnað á milli 55,5 - 96,6 milljarðar tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið frá skógum Amazon og flýtt fyrir hlýnun jarðar.
Í skýrslunni segir að aukinn landbúnaðar og fjölgun búpenings, eldar, þurrkar og skógarhögg geti valdið um 55% eyðileggingu á svæðinu. Loftslagsbreytingar geta flýtt fyrir ferlinu með minnkun rigninga um allt að 10%.
Fram kemur í skýrslunni að í lok aldarinnar munu gróðurhúsaáhrif draga úr rigningum um 20%, með þeim afleiðingum að hitastig mun hækka um meira en 2 gráður á celsíus sem gæti valdið skógareldum. Einnig sé lífsviðurværi innfæddra og 80% af búsvæði ýmissa dýrategunda í hættu. Varað er við að með eyðingu regnskóganna er jafnvægi loftslags jarðar raskað.
Skýrslan var kynnt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál sem fer nú fram á Balí. Markmið ráðstefnunnar er m.a að undirbúa samningaviðræður um sáttmála, sem taki við af Kyoto-bókuninni svonefndu. WWF krefjast stefnumótunar um minnkun losunar gróðurhúsaloftegunda og að skógarhögg verði stöðvað.