Rítalín algengara hér en í nágrannalöndunum

Notkun Rítalíns og skyldra lyfja hefur aukist mikið á undanförnum árum og er notkun á Íslandi svipuð því sem gerist í Bandaríkjunum en notkun þess í öðrum Evrópulöndum er enn sem komið er minni en hér á landi. Þetta kemur fram í grein í nýjasta hefti Læknablaðsins.

Um er að ræða fræðigrein um notkun methylphenidats (Rítalíns og skyldra lyfja) meðal barna á Íslandi 1989-2006 sem er birt í nýjasta hefti Læknablaðsins.  Greinin er eftir Helgu Zoëga, verkefnisstjóra hjá Landlæknisembættinu, Gísla Baldursson, sérfræðing á BUGL, og Matthías Halldórsson aðstoðarlandlækni um notkun methylphenidats meðal barna á Íslandi 1989-2006, greint eftir kyni, aldri og búsetu sjúklings, verkunartíma lyfs og sérgrein læknis sem ávísaði lyfinu.

Fram kemur í rannsókninni að hér á landi hefur hægt mjög á aukningu á fjölda þeirra einstaklinga sem nota lyfið á undanförnum árum. Einnig að notkun ritalíns minnkar á kostnað langvirkandi lyfja, sem hafa þann kost að barn þarf ekki að taka inn lyfið á skólatíma. Einnig hafa þau þann kost að vera síður misnotuð af fíklum, þótt sú misnotkun sé vissulega fyrir hendi.

Börnum með ADHD er hættara en öðrum börnum við að lenda í ýmiss konar vandræðum síðar á ævinni, þ.á.m. í lyfjamisnotkun. Hins vegar benda engar rannsóknir til þess að börnum sem meðhöndluð hafa verið með þessum lyfjum sé hættara við lyfjamisnotkun en öðrum börnum, heldur þvert á móti.

Landshlutaskipt algengi methylphenidats notkunar meðal barna á íslandi kom nokkuð á óvart, að því er segir á vef landlæknisembættisins. Þannig er mest notkun methylphenidats meðal drengja á Suðurnesjum, þrátt fyrir öfluga sálfræðimeðferð og forvarnastarf á því svæði. Hugsanleg skýring er sú að heilbrigðisstarfsfólk þar geri sér betur grein fyrir vandanum en gerist annars staðar á landinu, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert