Lítill hópur bandarískra vísindamanna heldur fast við að þvert á það sem mikill meirihluti vísindamanna haldi fram sé ekki óyggjandi að hlýnun í andrúmslofti jarðar sé af mannavöldum. Telur þessi hópur að hlýnunin sé náttúrulegt fyrirbæri, og benda vísindamennirnir á mikið af gögnum máli sínu til stuðnings.
Um miðjan síðasta mánuð birti Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) skýrslu þar sem sagði að vísbendingar um þátt manna í hlýnuninni væru nú óvéfengjanlegar.
En hópur vísindamanna í Bandaríkjunum er ósammála þessu og hefur ritað grein um afstöðu sína, sem birtist í The International Journal of Climatology, sem Konunglega breska veðurfræðifélagið gefur út.
„Athuganir á hlýnunarmynstrinu og samanburður á þróun hitastigs á yfirborðinu og í andrúmsloftinu leiða ekki í ljós þau einkenni sem tengja má við gróðurhúsaáhrif,“ segir aðalhöfundur greinarinnar, David Douglas, sérfræðingur í andrúmsloftsrannsóknum við Háskólann í Rochester.
„Niðurstaðan er óhjákvæmilega sú, að manngerð áhrif séu ekki þungvæg, og að sú aukning koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda, sem athuganir hafa leitt í ljós, ráði í raun litlu um hlýnun andrúmsloftsins,“ segir Douglas.
Vísindamennirnir benda ennfremur á gögn sem safnað hefur verið með gerfitunglum máli sínu til stuðnings.
Einn höfunda greinarinnar, Fred Singer, loftslagsfræðingur við Háskólann í Virginíu, segir að hlýnunin nú sé „einfaldlega hluti af náttúrulegri hringrás hlýnunar og kólnunar sem sést hefur í ísborkjörnum, djúpsjávarbotnlögum og dropasteinum ... og birst hefur í hundruðum greina í jafningjadæmdum vísindaritum.“